Rannsóknaraðilar á vegum Sameinuðu þjóðanna hafa gagnrýnt yfirvöld í Súdan harðlega fyrir mannréttindabrot í Darfur, þar á meðal fyrir morð, fjölda nauðganir og mannrán.
Yfirmaður rannsóknarteymisins sagði jafnframt að viðbrögð alþjóðasamfélagsins við neyðarástandinu í Darfur hefðu verið „aumkunarverð“.
Skýrsla um ástandið verður birt á sama tíma og mannréttindaráð SÞ mun hefja þriggja vikna fundarlotu í Gefn í Sviss.
Að minnsta kosti 200.000 manns eru talin hafa látið lífið í átökunum í Darfur, sem staðið hafa yfir undanfarin fjögur ár. Þar að auki hafa milljónir íbúa misst heimili sín.
Súdönsk stjórnvöld meinuðu sendifulltrúum SÞ að heimsækja Darfur. Þeir ræddu hinsvgar við flóttamenn og hjálparstarfsmenn á svæðinu.
Sendifulltrúarnir fimm ferðuðust til Chad, sem er nágrannaríki Súdans, en margir flóttamenn hafa flúið þangað. Þá hafa átökin í Súdan teygt anga sína til landsins.