Bush stefnir að því að efla tengsl Bandaríkjanna og Mexíkó

George W. Bush Bandaríkjafoseti er kominn til Mexíkó sem er síðasti viðkomustaðurinn á sjö daga ferðalagi hans um rómönsku Ameríku. Búist er við því að Bush muni ræða við Felipe Calderon, forseta Mexíkó, um ýmis viðkvæm málefni s.s. innflytjendamál, landamæravörslu og flutning á fíkniefnum.

Það er sama til hvaða lands Bush hefur komið, allsstaðar hefur komu hans verið mótmælt. Þá hefur forseti Venesúela, sem einnig er á ferð um rómönsku Ameríku, gagnrýnt Bush og Bandaríkin harðlega.

Hugo Chavez hefur verið að heimsækja ríki rómönsku Ameríku til þess að ræða það sem hann kallar afskiptasemi „bandaríska heimsveldisins“, að því er segir í frétt BBC.

Chavez flaug í gær til Port-au-Prince, höfuðborg Haítí, þar sem tugir þúsunda manns fögnuðu honum.

Þá staldraði hann stutt við í Jamaíka.

Chavez hóf ferðalag sitt í Argentínu í síðustu viku, en þar var hann frummælandinn á fjölmennum mótmælafundi gegn Bush. Þá hefur hann einnig heimsótt Bólivíu og Níkaragva.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert