Rahan Arshad, 36 ára leigubílsstjóri í Manchester á Englandi, var í dag dæmdur í ferfalt lífstíðarfangelsi fyrir að berja eiginkonu sína og þrjú ung börn til dauða með krikketkylfu í júlí í fyrra. Arshad varð viti sínu fjær þegar hann komst að því að eiginkona hans hefði haldið framhjá honum með fyrrgreindum afleiðingum.
Arshad flýði til Taílands eftir morðin og fundust ekki lík konu hans og barna í tæpan mánuð, en þau fundust 20. ágúst á heimili þeirra. Morðtólið fannst síðar í garðskýli. Arshad var handtekinn á Taílandi 30. ágúst. Hann iðraðist þess ekki að hafa myrt eiginkonu sína en syrgði börnin. Hann hélt því fram að eiginkona hans hefði myrt börnin. Sky segir frá þessu.