Lagt til að kvennafangelsum í Bretlandi verði breytt í karlafangelsi

Flestum ef ekki öllum breskum kvennafangelsum ætti að loka á næstu tíu árum eða breyta þeim í fangelsi fyrir karla, að því er fram kemur í skýrslu um ástand fangelsismála í Bretlandi sem ríkisstjórnin þar lét gera.

Nefnd undir forystu Jean Corston barónessu fór yfir þessi mál og komst að þeirri niðurstöðu að fækka ætti fangelsisdómum yfir konum og að konur sem fá meira en tveggja ára dóm eigi í framtíðinni að vera í smærri húsum undir eftirliti, þar sem um 20 til 30 konur komast fyrir og þá mögulega í miðjum borgum.

Ríkisstjórn Bretlands ætlar að verja 1,5 milljörðum punda í 8.000 ný fangelsispláss en bresk fangelsi eru öll yfirfull. Corston segir það hafa skelfileg áhrif á fjölskyldur kvennanna að dæma þær í fangelsi og oft séu þær dæmdar fyrir smávægileg brot. Í skýrslunni er lagt til að þær konur einar séu dæmdar í fangelsi sem framið hafi mjög alvarleg ofbeldisbrot. Um 4.300 konur eru í fangelsum í Englandi og Wales.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert