Og hvað á stríðið að heita? Ísraelar leita að nafni á stríðið í Líbanon

Ísraelskir embættismenn vilja fremur tala um hernaðaraðgerð í Líbanon heldur …
Ísraelskir embættismenn vilja fremur tala um hernaðaraðgerð í Líbanon heldur en stríðsátök. AP

Amir Peretz, varnarmálaráðherra Ísraels hefur fyrirskipað að fundið verði nafn sem hæfir stríði Ísraela við Hizbollah-skæruliða í Líbnon sl. sumar. Margir eru á þeirri skoðun að stríðið hafi verið fátt annað en mistök og þá hafa margir Ísraelar kallað eftir því að Peretz segi af sér vegna þess.

Peretz hefur skipað tveimur varahershöfðingjum og lagaprófessor til þess að finna nafn á stríðsátökin, en þetta kom fram í yfirlýsingu frá varnarmálaráðuneytinu sem AFP-fréttastofan komst yfir í dag.

Ísraelsher kallaði stríðið í Líbanon, sem varði í 34 daga, upphaflega „hernaðaraðgerð réttlát umbun“ áður en hann breytti því í „hernaðaraðgerð breytt um stefnu“.

Ráðherrann Yaacov Ederi, sem er formaður nefndar sem ber ábyrgð á opinberum athöfnum, sagði í samtali við ísraelska herútvarpið að hann væri einnig að leita eftir nafni við hæfi og hann hefur kallað nefndarmenn á sinn fund til þess að ræða málið nk. mánudag.

„Ég hef unnið að þessu í 10 að beiðni þeirra fjölskyldna sem eru að syrgja,“ sagði hann. „Embættismenn varnarmálaráðuneytisins geta komið með sínar tillögur á nefndarfundinn á mánudag,“ sagði hann. Þá neitaði hann því að það væri einhvern nafnasamkeppni í gangi milli ólíkra ráðuneyta, og hann bætti jafnframt við að menn myndu tala um „hernaðaraðgerð“ fremur en stríð.

Ísraelar og Hizbolla-liðar í Líbanon, sem eru sjítar, börðust sín á milli frá 12. júlí sl. til 14. ágúst. Fjölmiðlar kölluðu átökin seinna Líbanonsstríðið, en það fyrra Líbanonsstríðið var háð árið 1982 þegar Ísraelar réðust inn í landið. Sú hernaðaraðgerð kallaðist „Friður í Galíleu“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert