Starfsmannastjóri dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna segir af sér

Alberto Gonzales, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
Alberto Gonzales, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. Reuters

Kyle Sampson, starfsmannastjóri dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, hefur sagt af sér vegna brottreksturs átta alríkissaksóknara og eykst nú þrýstingurinn á að dómsmálaráðherrann, Alberto Gonzales, segi af sér vegna málsins. Málið þykir allt hið vandræðalegasta fyrir ríkisstjórn George W. Bush Bandaríkjaforseta, en þingnefnd rannsakar nú hvort brottrekstur saksóknaranna hafi verið samkvæmt tilskipun forsetans.

Sampson er sagður hafa sagt af sér vegna brottreksturs saksóknaranna en helstu dagblöð Bandaríkjanna sögðu frá því í dag að Hvíta húsið hefði lagt það til fyrir tveimur árum að öllum alríkissaksóknurum Bandaríkjanna yrði sagt upp en sætt sig við smærri hóp síðar, mennina átta.

Ríkissaksóknararnir átta voru allir reknir eftir að Bush ræddi við Gonzales um að kvartanir hefðu borist yfir því að þeir hefðu ekki fylgt nægilega eftir rannsóknum á kosningasvindli, að því er talskona forsetans, Dana Perino, heldur fram í samtölum við Washington Post og New York Times.

Washington Post heldur því fram að Sampson hafi sagt af sér eftir að hafa viðurkennt að hann hafi ekki látið embættismenn í dómsmálaráðuneytinu vita af samskiptum sínum við forsetaembættið. Sú yfirsjón hafi leitt til þess að embættismenn ráðuneytisins færðu þingnefndinni ónægar upplýsingar um málið og þar af Gonzales eiðsvarinn.

Gonzales kom fyrir þingnefndina í upphafi árs og sagði að stjórnmál hefðu ekkert með uppsagnirnar að gera. Tony Snow, talsmaður Hvíta hússins, segir Bush ekki eiga þátt í uppsögnunum. Reuters segir frá þessu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert