Fulltrúar Jafnaðarmannaflokksins í þýska fylkinu Neðra-Saxlandi vilja að Adolf Hitler verði sviptur þýskum ríkisborgararétti, sem honum var veittur í Braunschweig árið 1932. Fram kemur í sænska blaðinu Dagens Nyheter í dag, að Kristilegi demókrataflokkurinn í Neðra-Saxlandi hafi tekið dræmt í þessa tillögu og óttist að hana megi mistúlka.
Hitler var árið 1932 útnefndur embættismaður í stjórn Braunschweig, sem þá var eitt af þýsku fylkjunum. Sú leið var farin til að Hitler gæti fengið þýskan ríkisborgararétt en hann fæddist í Austurríki. Þetta gerði Hitler kleift að bjóða sig fram í forsetakosningum í Þýskalandi sama ár.
Að sögn DN vilja jafnaðarmenn í Neðra Saxlandi nú svipta Hitler ríkisborgararéttinum. Segja þeir að um væri að ræða táknræna aðgerð en Hitler svipti sig lífi í lok síðari heimsstyrjaldarinnar árið 1945.
Kristilegir demókratar fara með völd í fylkinu og Schünemann, innanríkisráðherra, hefur lýst efasemdum um þessa tillögu. Segir hann að hægt yrði að túlka hana þannig, að Neðra-Saxland sé að reyna að komast undan ábyrgð á því að Hitler fékk ríkisborgararétt á sínum tíma.