Einn af hverjum tíu íbúum aðildarríkja Evrópusambandsins viðurkennir að hann drekki sig fullan með reglulegu millibili, samkvæmt nýrri könnun sem birt var í dag og eru Írar samkvæmt henni mestu drykkjumennirnir. Þriðji hver Íri sem svaraði könnuninni sagðist drekka fimm eða fleiri glös af áfengi í einni lotu, en það telst fyllirí á mælikvarða könnunarstofnunar ESB.
Ætlunin var að kanna hversu oft einstakar þjóðir sambandsins færu á fyllirí, en það var könnunarstofnun Evrópusambandsins, Eurobarmeter, sem gerði könnunina. Finnar eru í öðru sæti á lista yfir þær þjóðir ESB sem fara á fyllirí og Bretar eru í þriðja sæti. Danir fylgja fast á hæla þeim.
Fyllirí er samkvæmt könnuninni fimm eða fleiri glös af áfengi á sama degi eða kvöldi. Aðeins 2% Ítala og Grikkja sögðust drekka svo mikið í einu. Um helmingur ítalskra kvenna sem þátt tóku í könnuninni sögðust aldrei drekka áfengi. Fyllirí er mest hjá ungu fólki í ESB, 19% aðspurðra á aldrinum 15-24 ára fara á fyllirí samkvæmt evrópskum mælikvarða. Talið er að ofneysla áfengis eigi þátt í andláti um 195.000 íbúa ESB á ári hverju.
Átta af hverjum tíu aðspurðpum styðja að varúðarmiðar verði settir á áfengisflöskur, líkt og gert er við tóbak.