Styttur af nöktu fólki ritskoðaðar í skjóli nætur í Ósló

Ein af styttunum í höggmyndagarðinum sem var ritskoðuð.
Ein af styttunum í höggmyndagarðinum sem var ritskoðuð. Reuters

Vegfarendur sem áttu leið hjá Vigelands-höggmyndagarðinn í Ósló urðu heldur betur undrandi þegar þeir sáu í morgun að búið var að líma bætur yfir „viðkvæma“ staði á nektarstyttum sem eru í garðinum.

Svo virðist sem einhver eða einhverjir, sem ekki er vitað hver eða hverjir eru, hafi tekið að sér að ritskoða stytturnar. Þeir létu aðeins styttuna Sinnataggen í friði, en hún er einn þekktasti skúlptúr Norðmanna. Hvað varðar aðrar styttur þá var búið að líma svartar bætur yfir kynfæri þeirra og brjóst.

„Það er allt of mikil nekt í dagblöðum og tímaritum, svo hér drögum við línuna!“ segir í skilaboðum sem viðkomandi einstaklingur eða einstaklingar, sem unnu að „endurbótum“ á styttunum í skjóli nætur, skildu eftir við brúna í garðinum.

Í Vigelands-höggmyndagarðinum standa 212 höggmyndir eftir listamanninn Gustav Vigeland en hann fékk þetta landsvæði að gjöf árið 1924 undir höggmyndir sínar en auk þeirra hannaði hann allan garðinn frá a til ö. Höggmyndir Vigelands þykja einstaklega fallegar og sýna yfirleitt samskipti mannsins og hringrás lífsins. Ein frægasta höggmyndin í garðinum stendur á brúnni og nefnist Litli reiði strákurinn.

Fram kemur í frétt norska dagblaðsins Verdens Gang að vegfarendur hafi ekki vitað hvort þeir ættu að hlæja eða gráta þegar þeir sáu stytturnar í morgun. Flestum þótti þetta hinsvegar nokkuð broslegt, en þó voru sumir á þeirri skoðun að þetta væri hræðileg meðferð á listaverkunum. Sér í lagi á listaverkum listamanns sem nýtur mikillar virðingar bæði í Ósló og í landinu.

Borgarstarfsmenn voru kallaðir út í kjölfarið til þess að fjarlægja bæturnar af styttunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert