Bandaríkjastjórn sagðist í dag ætla að flýta fyrir því að Íransforseti, Mahmoud Ahmadinejad, fengi vegabréfsáritun til að geta ávarpað öryggisráð Sameinuðu þjóðanna í New York, þegar kosið verður um refsiaðgerðir á hendur Írönum. Talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, Sean McCormack, hvatti forsetann til þess að tilkynna við það tækifæri að ríkisstjórn hans væri hætt við kjarnorkuáætlanir sínar.
McCormack segir umsókn um vegabréfsáritun fyrir Ahmadinejad og sendinefnd hans hafa borist í gegnum sendiráð Bandaríkjanna í Sviss. Talið er að ályktunin verði tekin fyrir í öryggisráðinu í næstu viku. McCormack segist ekki geta staðfest, vegna bandarískra laga, að Ahmadinejad fái áritunina.
Öryggisráðið hefur samið ályktun um refsiaðgerðir á hendur Íran fyrir að neita að láta af auðgun úrans, sem stjórnvöld þar segja í friðsamlegum tilgangi en Vesturlönd telja að framleiða eigi kjarnavopn úr.