Hneykslismál auka á vinsældir finnska forsætisráðherrans

Matti Vanhanen.
Matti Vanhanen. Reuters

Þingkosningar standa fyrir dyrum í Finnlandi og í aðdraganda þeirra kom út bók, þar sem Susan Kuronen lýsti í smáatriðum ástarævintýri sem hún átti með Matta Vanhanen, forsætisráðherra og leiðtoga Miðflokksins.

Slíkar uppljóstranir hefðu verið reiðarslag fyrir stjórnmálaleiðtoga í flestum öðrum ríkjum en vinsældir forsætisráðherrans hafa þvert á móti farið vaxandi og nú er svo komið að margir þeirra, sem fylgja öðrum flokkum að málum, vilja að Vanhanen gegni embættinu áfram eftir kosningarnar.

Sænska blaðið Dagens Nyheter segir að í bók Kuronen, sem kom út fyrir nokkrum vikum, komið fram að þau forsætisráðherrann, sem er 51 árs gamall, hittust á spjallrás á netinu, þar eru birt ástar-SMS skeyti sem Vanhanen sendi og lýst ástarleikjum í gufubaði í sumarhúsi forsætisráðherraembættisins.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ástamál forsætisráðherrans komast í hámæli í Finnlandi en afleiðingin er sú, að Finnar virðast hafa slegið um hann skjaldborg. Að sögn DN virðist forsætisráðherrann einkum sækja fylgi til kvenna, sem þyrpast að honum eins og rokkstjörnu þegar hann kemur fram á kosningafundum.

Eero Heinäluoma, nýr leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins, hefur flekklausan feril en þykir óspennandi og litlaus. Þótt skoðanakannanir bendi til þess að 25% Finna ætli að kjósa flokkinn á sunnudag vilja aðeins 10% að hann verði forsætisráðherra. Það þýðir, að meirihluti kjósenda flokksins vill að Vanhanen gegni embættinu áfram. Þá vilja 11% kjósenda fá Jyrki Katainen, nýjan leiðtoga Hægriflokksins, sem forsætisráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka