Íranar segja kjarnorkuáætlanir Breta vera „alvarlegan afturkipp“

Kjarnorkuandstæðingar fjölmenntu fyrir utan breska þinghúsið á miðvikudag til þess …
Kjarnorkuandstæðingar fjölmenntu fyrir utan breska þinghúsið á miðvikudag til þess að mótmæla hugmyndum Tony Blair um að endurnýja Trident-kjarnorkukafbátana. Reuters

Íranar gagnrýndu áætlanir breskra stjórnvalda í dag um að endurnýja kjarnorkuvopnabúr sitt. Íranar segja slíkar hugmyndir vera „alvarlegan afturkipp“ hvað varðar viðleitni alþjóðasamfélagsins að fækka slíkum vopnum.

„Bretar eiga ekki rétt á því að efast um aðra þegar þeir fara ekki eftir sínum eigin skuldbindingum,“ samkvæmt samkomulagi um takmörkun á útbreiðslu kjarnorkuvopna. Þetta sagði Ali Asghar Soltanieh, sendifulltrúi Írana hjá Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni.

Breska þingið hefur stutt áætlanir Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, um að endurnýja Trident-kjarnorkukafbátanna sem vopnaðir eru eldflaugum með kjarnaodda. Blair þurfti á atkvæðum stjórnarandstöðunnar að halda til þess að ná málinu í gegn eftir að hans eigin flokksmenn voru mótfallnir hugmyndunum, segir í frétt frá Reuters.

Sumir úr Verkamannaflokknum héldu því fram að verið væri að senda út röng skilaboð til ríkja eins og Írans og Norður-Kóreu með því að endurnýja vopnin. Íranar og Norður-Kóreumenn hafa mætt miklum þrýstingi á alþjóðavísu vegna kjarnorkuáætlana þeirra.

Íranar hafa hinsvegar ávallt haldið því fram að kjarnorkuáætlun þeirra hafi friðsaman tilgang. Þeir standa hinsvegar frammi fyrir því að Sameinuðu þjóðirnar muni beita þá frekari refsiaðgerðum eftir að þeir neituðu að hætta auðgun úrans. Óttast er að Íranar vilji framleiða kjarnorkuvopn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert