Stjórnvöld í Ísrael hafa lýst yfir áhyggjum af því að skyndilegt brotthvarf Bandaríkjahers frá Írak geti leitt til þess að hinum hófsömu stjórnvöldum í Jórdaníu verði steypt af stóli. Talsmaður Ísraelsstjórnar segir það þó alls ekki vera ætlun þarlendra stjórnvalda að blanda sér í deilur Bandaríkjamanna um Íraksmáli. Þannig hafi Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, einungis verið að lýsa faglegu áliti sínu er hann tjáði sig um málið í samskiptanefnd Bandaríkjanna og Ísraela (AIPAC) fyrr í vikunni. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.
Olmert sagði þetta mat sitt vera byggt á leyniþjónustuupplýsingum sem bendi til þess að kalli Bandaríkjastjórn her sinn heim frá Írak áður en jafnvægi kemst á í landinu muni það hafa mikil áhrif í Jórdaníu.
Þá telja ísraelskir ráðamenn að það geti haft mjög alvarleg áhrif á allt valdajafnvægi í heimshlutanum ljúki Íraksmálinu þannig að hægt verði að túlka það sem ósigur Bandaríkjanna í baráttunni við öfgamenn.
„Þeir sem láta sér umhugað um öryggi Ísraels, öryggi Persaflóaríkjanna og stöðugleika í öllum Miðausturlöndum þurfa að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að Bandaríkin hafi betur í Írak og að her þeirra fari þaðan með ábyrgum hætti,” sagði Olmert.