Mugabe hótar því að vísa ríkiserindrekum Vesturlanda úr landi

Robert Mugabe.
Robert Mugabe. Reuters

Robert Mugabe, forseti Simbabve, hótaði í dag að vísa öllum ríkiserindrekum Vesturlanda úr landi, fyrir að styðja stjórnarandstæðinga. Mugabe sagði embættismennina verða að haga sér með viðeigandi hætti, annars yrði þeim vísað burt. Ríkisstjórn Mugabe hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að siga lögreglu á fjöldafund stjórnarandstæðinga, en einn féll í áhlaupi lögreglunnar og fjölmargir særðust og var stungið í fangelsi.

Ríkisstjórnin segir stjórnarandstæðinga hafa átt upptökin. Morgan Tsvangirai, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, var útskrifaður af sjúkrahúsi í dag og var í hjólastól. Hann þurfti að leita læknis eftir barsmíðar lögreglu. Fjórir liggja enn á sjúkrahúsi.

Utanríkisráðherra Bretlands, Margaret Beckett, segir Mugabe bera ábyrgð á meiðslum Tsvangirai og Bandaríkjastjórn íhugar að framlengja refsiaðgerðir á hendur stjórninni. Mugabe lætur þetta sem vind um eyru þjóta og segist hafa beðið utanríkisráðherra sinn að safna saman ríkiserindrekum Vesturlanda og lesa þeim lög sem banna uppþot. „Þetta land er ekki í Evrópu,“ sagði Mugabe í dag. BBC segir frá þessu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert