Óeirðir brutust út í Búdapest

Til átaka kom á milli lögreglu og óeirðarseggja á götum Búdapest, höfuðborg Ungverjalands, eftir að 100.000 manns komu saman og kröfðust þess að forsætisráðherra landsins segði af sér.

Fjöldafundur stjórnarandstöðunnar, sem er sá fjölmennasti frá því herferð gegn Ferenc Gyurcsany hófst í fyrra, fór friðsamlega fram. Stjórnarandstæðingar vilja koma honum frá völdum eftir að hann viðurkenndi að hafa sagt ósatt varðandi stöðu efnahagsmála í landinu til þess að sigra í kosningunum í fyrra.

Átök brutust hinsvegar út þegar mótmælendur reyndu að leysa einn af leiðtogum sínum úr haldi, segir Reuters-fréttastofan.

Lögregla beitti vatnsþrýstibyssum og táragasi til þess að dreifa úr mannfjöldanum sem voru nokkur þúsund talsins. Flestir þeirra sem tóku þátt í óeirðunum voru hægri öfgamenn sem köstuðu grjóti í lögreglu sem hafði handtekið mann sem hún segir að hafi reynt að ryðjast inn í ríkissjónvarp landsins í september.

Kveikt var í ruslatunnum og vegatálmar voru settir upp, og var eldur lagður að einum þeirra. Engar fréttir hafa hinsvegar borist af því hvort lögreglumenn eða mótmælendur hafi orðið fyrir alvarlegum meiðslum í átökunum. Sjónarvottar hafa hinsvegar greint frá því að mótmælendur hafi gengið í skrokk á ljósmyndurum.

Slökkviliðsmenn sjást hér slökkva eld sem var kveiktur í vegatálma …
Slökkviliðsmenn sjást hér slökkva eld sem var kveiktur í vegatálma í borginni eftir að átökin brutust út. Reuters
Lögreglumenn í Búdapest sjást hér handtaka mann sem tók þátt …
Lögreglumenn í Búdapest sjást hér handtaka mann sem tók þátt í óeirðunum. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert