Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar var heiðursgestur ásamt Helle Thorning, leiðtoga danska jafnaðarflokksins, á landsfundi sænska Jafnaðarmannaflokksins, sem haldinn var í Folkets hus í Stokkhólmi í dag. Þar tók Mona Sahlin við leiðtogaembætti flokksins af Göran Person og eru konur nú í meirihluta formanna norrænu jafnaðarflokkanna.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ávarpaði landsfundinn og kemur fram í fréttatilkynningu frá Samfylkingunnai að hún hafi m.a. sagt í ræðu sinni að þetta væri stór dagur fyrir jafnréttisbaráttuna og stór dagur fyrir lýðræðið.
Þá er haft eftir henni í sænska blaðinu Dagens Nyheter að leiðtogarnir þrír „ætli allar að velta borgaralegum ríkisstjórnum úr sessi".
Ingibjörg Sólrún sagði að samfélag sem byggði á reynslu bæði kvenna og karla, væri sterkara og réttsýnna en samfélag sem ekki nýtti til fullnustu þann mannauð sem býr í báðum kynjum. Ingibjörg Sólrún gerði málefni barna að sérstöku umtalsefni og sagði það vera hálfkarað og ófullkomið samfélag sem ekki tæki mið af sjónarmiðum og þörfum barna.