Mona Sahlin var kjörin flokksleiðtogi Sósíaldemókrataflokksins í Svíþjóð og er þar með fyrsta konan sem gegnir því embætti. Sahlin, sem er fimmtug, tekur við af fyrrum forsætisráðherranum Göran Persson, sem tilkynnti að hann myndi láta af embættinu eftir tíu ár í starfi, eftir að sósíaldemókratar töpuðu kosningunum í september sl. til kosningabandalags mið- og hægriflokka.
Sahlin var ein í framboði og var framboð hennar samþykkt á flokksþingi flokksins í dag. Hún er sjöundi formaður flokksins í 118 ára sögu hans.
Persson kvaddi 1.700 viðstadda flokksmeðlimi í ræðu sem hann hélt á þinginu, þar sem hann lýsti því meðal annar yfir að hann væri öruggur um að flokkurinn væri í góðum höndum. ,,Þetta fer vel. Stefnum að kosningum”.
Sahlin var um tíma mjög áberandi í flokknum, en beið álithnekki árið 1995 þegar upp komst að hún hefði notað greiðslukort í eigu ríkisstjórnarinnar til einkanota. Hún dró sig tímabundið til baka úr stjórnmálum í kjölfarið en tók við ráðherraembætti í ríkisstjórn Perssons árið 1998.