Mustafa Barghouti, nýr upplýsingamálaráðherra heimastjórnar Palestínumanna, upplýsti í dag að norsk stjórnvöld hefðu tilkynnt Palestínumönnum í dag að þau muni viðurkenna nýja samstjórn Hamas og Fatah-samtakanna og muni eiga samskipti við hana. Utanríkisráðuneyti Noregs staðfesti þetta í tilkynningu síðdegis.
Noregur hefur tekið virkan þátt í friðarferlinu fyrir botni Miðjarðarhafs og hefur stutt heimastjórn Palestínumanna af ráðum og dáð.
Ísraelsstjórn tilkynnti í dag að hún muni ekki eiga samskipti við nýju heimastjórnina og Miri Eisin, talsmaður stjórnarinnar, sagðist vona, að alþjóðasamfélagið skoðaði málið vandlega. „Við viljum gjarnan veita Palestínumönnum aðstoð en þessi nýja ríkisstjórn uppfyllir engin þau skilyrði, sem alþjóðasamfélagið hefur sett," sagði hún.