Mona Sahlin tekur í dag við embætti leiðtoga Jafnaðarmannaflokksins í Svíþjóð af Göran Persson á aukaflokksþingi í Stokkhólmi. Skoðanakönnun, sem birtist í blaðinu Dagens Nyheter í gær sýnir, að aðeins rúmlega helmingur kjósenda flokksins ber traust til Sahlin. Til samanburðar segjast 91% kjósenda Hægriflokksins treysta Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra og leiðtoga flokksins.
Samkvæmt könnuninni segjast 56% þeirra, sem ætla að kjósa Jafnaðarmannaflokkinn, treysta Sahlin, sem hefur marga fjöruna sopið í sænskum stjórnmálum. Hún var varaforsætisráðherra árið 1995 en neyddist til að segja af sér embætti þegar blaðið Expressen upplýsti, að hún hefði notað kreditkort embættisins til að kaupa ýmsar neysluvörur, þar á meðal Toblerone-súkkulaði. Hefur málið síðan verið kallað Toblerone-málið.
Sahlin snéri þó aftur eftir nokkurt hlé, fyrst sem aðstoðarumhverfisráðherra. Þegar leitað var að eftirmanni Perssons á síðasta ári í embætti leiðtoga Jafnaðarmannaflokksins kom nafn Sahlin upp, m.a. vegna þess að kröfur komu upp að kona yrði leiðtogi. Í byrjun ársins varð niðurstaðan síðan að Sahlin gaf kost á sér og engin mótframboð komu fram.
Þátttakendur í könnun DN nefna flestir gamlar syndir og hneykslismál þegar þeir voru spurðir hvers vegna þeir treysti ekki Sahlin.