Búist við fjölmennum mótmælum gegn Íraksstríði í New York

Eftirlíkingar af líkkistum voru bornar um götur í Hollywood í …
Eftirlíkingar af líkkistum voru bornar um götur í Hollywood í gærkvöldi. Reuters

Búist er við fjölmennum mótmælum í New York í Bandaríkjunum í dag gegn stríðinu í Írak. Tugir þúsunda tóku þátt í mótmælaaðgerðum utan við bandaríska varnarmálaráðuneytið í Washington í gærkvöldi en um þessar mundir eru rétt fjögur ár frá því innrásin í Írak var gerð. Þá tóku nokkur þúsund manns þátt í mótmælafundi í Hollywood.

Samtökin United for Peace and Justice, sem segjast vera stærstu friðarsamtökin í Bandaríkjunum, segjast hafa undirbúið samræmdar mótmælaaðgerðir til að leggja áherslu á kröfuna um að Bandaríkjaþing ákveði að hætta hernámi Íraks og kalli bandarískar hersveitir þar heim.

Á mótmælafundinum í Washington í gær krafðist Ramsey Clark, fyrrum dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, þess að George W. Bush, Bandaríkjaforseti, verði sóttur til saka fyrir embættisglöp. Cindy Sheehan, sem missti son sinn í Írak, krafðist þess að Bandaríkjaher verði kallaður heim.

„Ég gekk hér árið 1967," sagði Maureen Dooley, 59 ára, en það ár voru miklar mótmælaaðgerðir utan við varnarmálaráðuneytið vegna stríðsins í Víetnam. „Það tók sjö ár að binda enda á það stríð."

Leikarinn Martin Sheen og tónlistarmaðurinn Ben Harper voru meðal þátttakenda …
Leikarinn Martin Sheen og tónlistarmaðurinn Ben Harper voru meðal þátttakenda í mótmælagöngum í Hollywood. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka