Hægrimenn í Finnlandi eru sigurvegarar þingkosninga, sem fóru fram í dag. Hægriflokkurinn fékk 22,2% atkvæða og bætti við sig 3,7 prósentum frá síðustu þingkosningum fyrir fjórum árum. Flokkurinn fær 50 þingmenn af 200 á sænska þinginu, bætti við sig 10.
Miðflokkurinn er hins vegar áfram stærsti flokkurinn en hann fékk 23,2% atkvæða, tapaði 1,6 prósentum en fær 51 þingmann. Leitt er að því líkum, að Matti Vanhanen, forsætisráðherra og leiðtogi Miðflokksins, taki upp viðræður við Jyrki Katainen, leiðtoga Hægriflokksins um stjórnarmyndun.
Jafnaðarmannaflokkurinn fékk 21,4% atkvæða, tapaði 3 prósentum og 8 þingmönnum, fær 45 þingmenn. Þetta er mikið áfall fyrir Jafnaðarmannaflokkinn, sem aðeins einu sinni áður á síðustu 100 árum hefur verið þriðji stærsti þingflokkurinn. Það var árið 1962 þegar djúpstæður ágreiningur var innan flokksins. Flokkurinn hefur verið í stjórn ásamt Miðflokknum og Sænska þjóðarflokknum, sem fékk 4,5% atkvæða eða nánast sama fylgi og í síðustu kosningunum en bætti við sig einum þingmanni og fékk 9.
Vinstribandalagið fékk 8,8% atkvæða og 17 þingmenn, tapa tveimur, Græningjar fengu 8,5% og 15 þingmenn, bæta við sig einum, Kristilegir demókratar 4,9% og halda 7 þingmönnum og Sannir Finnar 4,1% og 5 þingmenn, bæta við sig tveimur.
Kjörsókn var 67,8%, nærri 2 prósentum minni en í síðustu þingkosningum.