Íbúar á Mallorca mótmæla byggingarframkvæmdum

Fjöldi Íslendinga hefur sleikt sólina á Mallorca.
Fjöldi Íslendinga hefur sleikt sólina á Mallorca. mbl.is/Brynjar Gauti

Talið er að allt að 50 þúsund manns hafi tekið þátt í mótmælafundi í Palma, höfuðstað Miðjarðarhafseyjarinnar Mallorca, gegn fyrirhuguðum byggingarframkvæmdum í nágrenni borgarinnar. Til stendur að leggja nýjar hraðbrautir og golfvelli og byggja fjölda sumarhúsa meðfram ströndinni.

Eyjaklasinn sem Mallorca og Minorca tilheyra ásamt fleiri eyjum eru sérstakt sjálfsstjórnarsvæði og þar ræður hægriflokkur ríkjum. Um 180 samtök, þar á meðal náttúruverndarsamtök og tveir helstu vinstriflokkar á eyjunum boðuðu til mótmælafundarins í gærkvöldi.

„Þegar svona kæruleysi og spilling blasa við, er kominn tími til að spyrna við fótum," sagði listamaðurinn Joan Lacomba m.a. á fundinum.

Gagnrýnendur segja, að menning og umhverfi eyjanna sé í stórhættu vegna fyrirhugaðra framkvæmda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert