Miðflokkurinn með mest fylgi í finnsku kosningunum

Matti Vanhanen greiðir atkvæði í Nurmijarvi skammt frá Helsinki.
Matti Vanhanen greiðir atkvæði í Nurmijarvi skammt frá Helsinki. Reuters

Miðflokkurinn undir stjórn Matta Vanhanen, forsætisráðherra, fékk mest fylgi í þingkosningum í dag samkvæmt fyrstu tölum, sem birtar voru þegar kjörstöðum var lokað klukkan 18 að íslenskum tíma. Þegar búið var að telja 42% atkvæða hafði miðflokkurinn fengið 25,3%, Jafnaðarmannaflokkurinn 22,6% og Hægriflokkurinn 21,5%.

Haldi Miðflokkurinn stöðu sinni sem stærsti flokkur Finnlands getur Vanhanen endurnýjað stjórnarsamstarf við Jafnaðarmannaflokknn og Sænska þjóðarflokkinn eða reynt að mynda stjórn með Hægriflokknum.

Hvernig sem stjórnarmynstrið verður er ekki talið að miklar breytingar verði en stærstu flokkarnir eru í stórum dráttum sammála í flestum málum, þar á meðal að viðhalda hlutleysi landsins og velferðarkerfi. Hægriflokkurinn er opinn fyrir því að Finnar sæki um aðild að NATO en hefur ekki beitt sér í því máli vegna þess að almenningur er andvígur því.

Vanhanen hefur gengið nokkuð vel að hafa stjórn á efnahagsmálum á síðasta kjörtímabili og atvinnuleysi hefur minnkað og er nú 7,6%. Gagnrýnendur segja þó að honum hafi mistekist að bæta velferðarkerfið og staða aldraðra var mjög til umræðu í kosningabaráttunni enda eru 15% þjóðarinnar 65 ára og eldri.

Nýtt þing kemur saman síðar í vikunni og 17. apríl kjósa þingmenn nýjan forsætisráðherra, venjulega leiðtoga stærsta þingflokksins. Búist er við því að Tarja Halonen, forseti, birti formlega nýjan ráðherralista stjórnarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert