44% Evrópumanna neikvæðir gagnvart ESB

Fánar Evrópusambandsins blakta utan við höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB í Brussel.
Fánar Evrópusambandsins blakta utan við höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB í Brussel. mbl.is/GSH

Skammt er þangað til Evrópusambandið fagnar hálfrar aldar afmæli sínu og hefur viðskiptablaðið Financial Times gert könnun sem leitt hefur í ljós að 44% Evrópumanna telja að lífið hafi versnað frá því landið þeirra gekk í sambandið.

Alls tóku 6.772 fullorðnir einstaklingar þátt í könnuninni, sem var gerð á netinu, frá Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu og Spáni. Þá voru bandarískir ríkisborgarar einnig spurðir spurninga er vörðuðu ESB.

Aðeins 22% þeirra Evrópumanna sem tóku þátt í könnuninni sögðu hinsvegar að landið þeirra ætti að draga sig út úr sambandinu, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Breskir svarendur voru neikvæðastir gagnvart uppkasti að stjórnarskrá ESB.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur sagt að hún vilji að menn komist að samkomulagi varðandi vegvísi að stofnanabreytingum ESB fyrir júní nk. Hún hefur sagt að árið 2009 séu síðustu forvöð að sameiginleg stjórnarskrá verði tekin upp. Þýskaland fer nú með forsæti í ESB.

Þegar fólk var spurt hvað það væri sem það tengdi helst við ESB var einn markaður svar hjá 31% aðspurðra, 20% svöruðu skriffinnska, 9% sögðu lýðræði og 26% töldu upp aðra þætti.

Í Bretlandi sögðust 52% aðspurðra að ástandið hafi versnað frá því landið gekk í sambandið. Meirihluti Spánverja, eða 53%, sögðu hinsvegar, að lífið hefði batnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert