Bandaríkjastjórn hefur harðlega fordæmt aðgerðir yfirvalda í Zimbabve gagnvart leiðtogum stjórnarandstöðunnar í landinu og lýst Robert Mugabe, forseta landsins, persónulega ábyrgan fyrir árásum á þá að undanförnu. Ráðist var á Nelson Chamisa, þingmann stjórnarandstöðuflokksins MDP, á alþjóðaflugvellinum í Harare í gær en fyrir viku var Morgan Tsvangirai, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, höfuðkúbubrotinn í haldi lögreglu. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
„Við lítum svo á að Mugabe forseti beri persónulega ábyrgð á þessum aðgerðum og hvetjum hann til að veita öllum íbúum Zimbabve rétt til lífs án ótta og til að taka fullan þátt í stjórnmálum,” Sean McCormack, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins. Þá hefur Afríkusambandið hvatt yfirvöld í Harare til að virða mannréttindi og til að ganga til uppbyggilegra viðræðna um hugsanlega lausn kreppunnar í landinu.
Nelson var meinað að fara úr landi í gær en hann hugðist sækja fund fulltrúa Evrópusambandsins sem fulltrúum Afríku- og Kyrrahafsþjóða í Belgíu. Segir hann að a.m.k. átta menn hafa ráðist á sig er hann steig út úr bíl sínum við flugvöllinn. „Það er ekkert öryggi, enginn vernd. Við erum allir í hættu,” segir Chamisa en hann er nú á sjúkrahúsi þar sem hann er talinn hafa höfuðkúbubrotnað í árásinni.
Þá var Arthur Mutambara, frammámaður innan MDC, handtekinn að nýju á laugardag er hann hugðist fara til Suður-Afríku til að leita sér lækninga vegna áverka sem hann hlaut í haldi lögreglu eftir að hann var handtekinn fyrir viku ásamt tugum annarra stjórnarandstæðinga. Lögfræðingur hans segir hann hafa alla tilskilda pappíra til ferðarinnar en að er hann hafi ætlað að ganga um borð í vélina hafi hann verið krafinn um sérstakt leyfi frá heilbrigðisráðuneyti landsins.