Chiquita greiddu hryðjuverkamönnum fyrir vernd

Ian Gillan, söngvari Deep Purple, með banana á höfði, ekki …
Ian Gillan, söngvari Deep Purple, með banana á höfði, ekki fylgir sögunni hvort hryðjuverkamenn hafi haldið verndarhendi yfir ræktun þessara banana AP

Bananaframleiðandinn Chiquita hefur játað fyrir bandarískum dómstólum að hafa átt í viðskiptum við kólumbíska hryðjuverkamenn um árabil og greitt þeim fyrir að vernda bananaframleiðslu fyrirtækisins í landinu.

Chiquita greiddi á árunum 1997 til 2004 um 1,7 milljónir dala til AUC hópsins, sem sagður er bera ábyrgð á fjölda morða og ódæðisverka auk þess að standa fyrir stórum hluta af kókaínútflutningi landsins. Samtökin voru árið 2001 skilgreind af bandarískum stjórnvöldum sem hryðjuverkasamtök.

Játning Chiquita er hluti af samkomulagi sem fyrirtækið hefur gert við saksóknarann í málinu, en þar var samið um að fyrirtækið greiddi 25 milljóna dala sekt. Fyrirtækið hagnaðist á árunum 2001 -2004 um 49,4 milljónir dala á bananaframleiðslunni í Kólumbíu og er starfsemin þar sú sögð arðbærasta í fyrirtækinu.

Forsvarsmenn Chiquita segjast hafa neyðst til að inna af hendi greiðslurnar og hafi einungis haf hag viðskiptavina og hluthafa í huga. Jeffrey Taylor, saksóknari bandaríska ríkisins, segir þó að greiðslur til hryðjuverkasamtaka geti aldrei verið talin eðlilegur hluti af því að stunda viðskipti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert