Trú Íraka á íröskum yfirvöldum, íraska stjórnarhernum, Bandaríkjaher og öðrum erlendum hersveitum í landinu hefur minnkað mikið frá árinu 2005 samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem er sambærileg við könnun sem gerð var fyrir tveimur árum. Einungis 18% Íraka segjast nú hafa trú á bandaríska herliðinu og öðrum erlendum hersveitum í landinu og 86% segjast hafa áhyggjur af því að einhver nákominn þeim verði fórnarlamb ofbeldisins í landinu. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Þá segjast 67% aðspurðra ekki telja að uppbyggingarstarfið í Írak hafi borið árangur.
Það vekur athygli að íraskir sjítar eru mun bjartsýnni á framtíðina en súnnítar, samkvæmt könnuninni, en mest er svartsýni fólks í höfuðborginni Bagdad og miðhluta Íraks þar sem hlutfall súnníta er hæst. Mun fleiri súnnítar lýsa einnig óánægju með það hvernig aftaka Saddaams Husseins, fyrrum Íraksforseta, fór fram en sjítar.
Enginn stuðningur mælist hins vegar við það að Írak verði skipt í aðskilin ríki sjíta og súnníta.
Könnunin var gerð fyrir BBC í Bretlandi, ARD í Þýskalandi og ABC News og USA Today í Bandaríkjunum og tóku 2.000 manns þátt í henni.