Danskir drengir á aldrinum 13 til 16 ára verja mun meira fé til fatakaupa en stúlkur á sama aldri samkvæmt því sem könnun Center for Ungdomsstudier og Religionspædagogik hefur leitt í ljós. 1,168 ungmenni víðs vegar að úr Danmörku tóku þátt í könnuninni og sögðust 41,7% drengjanna hafa eytt meira en þúsund dönskum krónum í fatakaup síðasta mánuðinn. Einungis 27,1% stúlknanna kváðust hins vegar hafa gert það. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
„Drengirnir fara seinna í gang en þegar þeir fara að fá áhuga á fötum þá fá þeir hann af miklum krafti. Það er meiri samkeppni í tískunni á meðal þeirra þannig að þeir fara fljótt út í merkjavörur frá toppi til táar. Þeir hafa heldur ekki sömu reynslu af fatakaupum og stúlkur og því eru þeir sennilega ekki jafn færir í því að blanda saman dýrum og ódýrari fötum,” segir Rie Skårhøj, sem stóð að rannsókninni.