Vesturveldin hétu því í dag að halda áfram að beita forseta Simbabve, Robert Mugabe, þrýstingi þrátt fyrir að hann hafi hótað að reka sendifulltrúa vesturveldanna úr landi haldi þau áfram að gagnrýna ríkisstjórn hans.
Bæði Bretland og Bandaríkin hafa kallað eftir því að gripið verði til frekari refsiaðgerða gagnvart ríkisstjórn Mugabe vegna þess hve hart hún tók á leiðtogum stjórnarandstöðunnar, og vegna þess neyðarástands í efnahagsmálum sem ríkir í landinu. Vesturveldin segja að ástandið sé svona slæmt sem raun beri vitni sökum óstjórnar í efnahagsmálum.
Utanríkisráðherra Simbabve, Simbarashe Mumbengegwi, varaði vestræna erindreka í Harare við því að ríkisstjórn landsins myndi ekki hika við að reka þá úr landi sem styðja stjórnarandstöðuna.
„Hótanir sem þessar munu ekki aftra Bretum frá því að tala opinskátt um áframhaldandi óstjórn og mannréttindabrot í Simbabve, “ sagði embættismaður hjá bresku utanríkisþjónustunni.
Embættismenn í Simbabve hafa ekki nefnt á nafn þau lönd sem gætu átt í hættu á að vera rekin úr landi, en talið er að meðal landanna séu Bretland, Bandaríkin, Ástralía og Svíþjóð.