Æðsti klerkur Írans hefur varað við því að Íranar gætu stundað kjarnorkuvinnslu utan ramma alþjóðalaga ef gripið verði til ólöglegra aðgerða gegn landinu.
Ayatollah Ali Khamenei lét ummælin falla á sama tíma og öryggisráð Sameinuðu þjóðanna undirbjó viðræður um að beita Íran frekari refsiaðgerðum í því skyni að stöðva kjarnorkutilraunir þeirra. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Írönsk stjórnvöld hefur þegar sagt að ályktun SÞ um að beita Íran refsiaðgerðum vegna þessa sé ólögmæt.
Þá neita Íranar að þeir hyggist framleiða kjarnorkuvopn. Kjarnorkuáætlun þeirra sé aðeins hugsuð í friðsömum tilgangi.
Uppkast að ályktun þar sem tilgreindar eru frekari refsiaðgerðir gagnvart Írönum var samþykkt í síðustu viku, en það voru sendifulltrúar þeirra fimm ríkja sem eiga fast sæti í öryggisráðinu sem lögðu blessun sína yfir uppkastið.
Í sjónvarpsávarpi sem var sjónvarpað um gjörvallt Íran sagði Khamenei að Íranar væru staðráðnir í því að standa fast á sínu, hvað varðar kjarnorkuáætlun landsins. Sama til hvaða aðgerða alþjóðasamfélagið mun grípa til.
„Þar til í dag er það sem við höfum gert í samræmi við alþjóðlegar reglur,“ sagði Khamenei.
„En ef þeir grípa til ólöglegra aðgerða, þá getum við einnig gripið til ólöglegra aðgerða og það munum við gera.“
Khamenei skýrði hinsvegar ekki nánar hvað hann átti við með orðum sínum.