Bolton hreykinn af framgöngu Bandaríkjanna í Líbanonstríðinu

John Bolton, fyrrum sendiherra Bandaríkjanna hjá Sþ.
John Bolton, fyrrum sendiherra Bandaríkjanna hjá Sþ. Reuters

John Bolton, fyrrum sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, hefur greint frá því að bandarísk yfirvöld hafi meðvitað staðið í vegi fyrir því að vopnahlé yrði komið á í átökum Ísraela og Hizbollah hreyfingarinnar í Líbanon síðastliðið sumar þar sem þau vildu að Hizbollah samtökin biðu sem mesta hnekki áður en vopnahlé yrði komið á. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Bolton segir í útvarpsviðtali við BBC að það hefði verið misráðið og hættulegt að koma á vopnahléi fyrr en gert var og að yfirvöld í Bandaríkjunum hafi því ekki lagt sig fram um að koma á vopnahléi fyrr en ljóst var orðið að Ísraelsher næði ekki markmiðum sínum með hernaðinum.

Þá segir hann að það hafi valdið Bandaríkjastjórn miklum vonbrigðum að Ísraelsher skyldi ekki takast að brjóta samtökin á bak aftur.

Í viðtalinu segir Bolton vera hreykinn af framkomu bandarískra yfirvalda í málinu enda hafi það verið fullkomlega réttlætanlegt að freista þess að brjóta samtökin á bak aftur með vopnavaldi sérstaklega þar sem átökin hafi brotist út í kjölfar ásásar Hizbollah yfir landamærin til Ísraels og því hafi verið um varnaraðgerð Ísraela að ræða.

Viðtalið verður birt í heild sinni í heimildarþætti um Líbanonstríðið í apríl en í þættinum mun m.a. koma fram að leiðtogar nokkurra Arabaríkja hafi einnig vonast til að Ísraelar næðu að brjóta Hizbollah-samtökin á bak aftur. „Það voru margir sem ekki, hvernig á ég að orða það, voru andsnúnir þeirri tilhugsun að Ísraelar ættu að gersigra Hizbollah sem... Arabar líta í æ meira mæli á sem útsendara Írana,” segir Terje Roed Larsen, sérstakur samningamaður Sameinuðu þjóðanna, í þættinum.

Rúmlega 1.000 óbreyttir Líbanar og 43 ísraelskir borgarar féllu í átökunum auk 116 ísraelskra hermanna og óþekkts fjölda liðsmanna Hizbollah-samtakanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert