Skuggi fellur á framboð Obamas vegna auglýsingar

Barack Obama.
Barack Obama. Reuters

Skuggi hefur nú fallið á framboð bandaríska þingmannsins Baracks Obamas, sem sækist eftir útnefningu demókrata sem forsetaefni, vegna auglýsingar sem birtist á netinu og beinist gegn Hillary Clinton, þingmanni, sem einnig sækist eftir útnefningu flokksins. Í ljós hefur komið, að starfsmaður ráðgjafarskrifstofu, sem tengist Obama, bjó auglýsinguna til en þingmaðurinn segist ekki hafa vitað af þessu.

Auglýsingin birtist með dularfullum hætti á vefnum YouTube og sýnir Clinton á stórum skjá ávarpa áhorfendur sem sitja í leiðslu. Íþróttakona kemur hlaupandi inn í salinn og kastar hamri á skjáinn og brýtur hann. Síðan birtist texti þar sem stendur: „14. janúar hefjast forkosningar demókrata og þið munið sjá hvers vegna 2008 verður öðruvísi en 1984." Undir er skrifað BarackObama.com.

Obama sagðist í gær ekkert hafa með þessa auglýsingu að gera og nú hefur komið í ljós, að Philip de Vellis, 33 ára gamall starfsmaður ráðgjafarstofunnar Blue State Digital í Washington, gerði auglýsinguna, að eigin sögn af eigin frumkvæði. Blue State hannaði vefsíðu Obamas og einn af stofnendum fyrirtækisins, Joe Rospars, tók sér frí til að vinna sem fjölmiðlastjóri hjá framboði þingmannsins.

De Vellis er nú hættur störfum hjá Blue State. Hann segist hafa sagt upp en framkvæmdastjóri Blue State segir að hann hafi verið rekinn.

Mál þetta varpar nokkrum skugga á framboð Obamas en hann hét því að reka heiðarlega kosningabaráttu og beita ekki ýmsum brögðum, sem einkennt hafa kosningabaráttu undafarinna áratuga. Og þótt Obama tengist ekki auglýsingunni, þar sem Clinton er sýnd í mynd Stóra bróður, nema óbeint er málið samt afar óþægilegt.

Málið varpar einnig ljósi á möguleika netsins í kosningabaráttu og hvað einstaklingar geta áorkað til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. De Vellis segist hafa hagað sér eins og hver annar áhugamaður um pólitík með þekkingu á nettækni. Hann hefði notað tölvuna heima og klippiforrit til að breyta auglýsingu, sem birtist meðan á úrslitaleik bandaríska ruðningsins stóð árið 1984.

En samt er ekki hægt að horfa fram hjá því, að de Vellis var pólitískur atvinnumaður, sem hefur unnið fyrir núverandi þingmenn Demókrataflokksins og hann starfaði hjá fyrirtæki sem vinnur fyrir stjórnmálamenn, þar á meðal Obama.

Fulltrúar framboða Clintons og Obamas hafa tekist á um ýmis mál á undanförnum vikum og þykja á stundum hafa farið nokkuð offari.

Hillary Rodham Clinton ásamt Bill Clinton, eiginmanni sínum, á kosningafundi.
Hillary Rodham Clinton ásamt Bill Clinton, eiginmanni sínum, á kosningafundi. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert