Sprengju var í morgun skotið úr sprengjuvörpu á hið svokallaða græna svæði í Bagdad er Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, var í púlti á blaðamannafundi sem hann hélt ásamt forsætisráðherra Íraks, Nuri al-Maliki. Framkvæmdastjórinn skýldi sér að sögn viðstaddra á bak við púltið en sakaði ekki og virtist ekki ýkja brugðið.
Eftir stutt hlé héldu mennirnir áfram að svara spurningum fréttamanna en þetta er fyrsta heimsókn Ki-moon til Íraks.
Samkvæmt upplýsingum frá írösku öryggissveitunum mun sprengjan ekki hafa valdið neinum skaða og engin slys á mönnum hafa verið tilkynnt.
Ki-moon mun hafa sagt blaðamönnum skömmu fyrir sprenginguna að hann væri viss um að þess væri skammt að bíða að Írak gæti litið til bjartrar og öruggrar framtíðar fyrir íbúa og stjórn landsins.