Bandaríkjaher hefur misst 130 herþyrlur í Írak og Afganistan, en þriðjungur þeirra hafa verið skotnar niður. Frá þessu greindi flugmálastjóri hersins í dag. Hann kvartar undan því að það gangi hægt að fá þyrlukostinn endurnýjaðan.
„Á meðan herinn er á stríðsbuxunum, þá virðist sem iðnaðurinn í okkar landi sé ekki á stríðsbuxunum,“ sagði hershöfðinginn Stephen Mundt.
Hann segir að það taki 24 mánuði að fá annað flugtæki smíðað og afhent. Nú fyrst séu nýjar þyrlur að koma til Íraks sem ætlað er að taka við af þeim þyrlum sem voru meðal þeirra fyrstu sem herinn glataði.
„Bandaríkin eru ekki í stríði; herinn er í stríði,“ sagði hann við blaðamenn í dag. Hann kvartaði einnig undan því að ríkisstjórninni gangi hægt að greiða fyrir kaupin. „Iðnaðurinn verður að komast að þeim tímapunkti þar sem hann framleiðir . . . hraðar.“
Mundt tjáði sig ekki frekar um þyrlutapið utan þeirra sem höfðu verið skotnar niður. Hann sagði þó að ryk, óhreinindi og erfitt landslag og aðstæður í Írak og Afganistan gerðu þyrlunum lífið leitt.