Samþykkt að kalla Bandaríkjaher frá Írak 1. september 2008

Bandarískir hermenn sjást hér yfirgefa fyrrum mosku sem nú hefur …
Bandarískir hermenn sjást hér yfirgefa fyrrum mosku sem nú hefur verið breytt í bækistöð fyrir Íraksher í Bagdad í gær. Reuters

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í dag frumvarp, í óþökk George W. Bush Bandaríkjaforseta, að allar bandarískar bardagasveitir verði kallaðar heim frá Írak þann 1. september 2008.

Demókrötum tókst að fá ofangreindan lokafrest samþykktan, en málið var samþykkt með 218 atkvæðum gegn 212 atkvæðum. Þá hefur verið samþykkt, samhliða frumvarpinu, 124 milljarða neyðarfjárveiting vegna stríðsrekstursins í Írak og Afganistan á þessu ári.

Atkvæðagreiðslan í dag er mikilvægur sigur fyrir Nancy Pelosi, forseta Bandaríkjaþings, og félaga hennar í Demókrataflokknum, en þeir tóku við völdum á þinginu í eftir þingkosningarnar í nóvember sl. En demókratar hétu því að binda enda á stríðið í Írak sem nýtur sífellt meiri óvinsælda.

„Við munum láta til okkar taka með þessu lagfrumvarpi. Við ætlum að koma þessum hermönnum heim til sín,“ sagði þingmaðurinn, John Murtha, með kökkinn í hálsinum. Hann hefur leitt baráttuna fyrir því að draga herliðið frá Írak síðan í nóvember 2005

Talsmenn Hvíta hússins hafa varað við því að Bush gæti beitt lagafrumvarpið neitunarvaldi, m.a. vegna tímasetningarinnar og vegna annarra skilyrða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert