Abe biðst afsökunar í vændiskonumálinu

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans.
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans. AP

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, hefur beðist afsökunar á því á japanska þinginu að japanski herinn hafi neytt konur til starfa sem vændiskonur í vændishúsum hersins á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Afsökunarbeiðnin fylgir í kjölfar efasemda sem hann setti fram um að konurnar hefðu verið neyddar til nokkurs en þau ummæli hans vöktu mikla reiði í nágrannaríkjum Japans. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

„Ég biðst afsökunar hér og nú sem forsætisráðherra," sagði Abe á þinginu í dag. Þá sagðist hann standa við þá yfirlýsingu sem japönsk yfirvöld sendu frá sér vegna málsins árið 1993 en félög kvennanna sem um ræðir hafa sagt þá afsökunarbeiðni ófullnægjandi. „Eins og ég hef oft sagt þá finn ég til með því fólki sem gekk í gegn um erfiðleika og ég biðst afsökunar á því að það skuli hafa lent í þessum aðstæðum á þeim tíma," sagði Abe.

Japanskir embættismenn segja yfirlýsingu hans einungis miða að því að skýra afstöðu hans en ekki vera merki um að hann hafi látið undan utanaðkomandi þrýstingi í málinu en frumvarp er nú til umræðu á Bandaríkjaþingi þar sem japönsk yfirvöld eru hvött til að biðjast afsökunar með afgerandi hætti í málinu.

Sagnfræðingar segja að allt að 200.000 konur hafi verið neyddar til að stunda vændi í vændishúsum japanska hersins á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar en margir Japanar halda því hins vegar fram að hafi konurnar verið neyddar til þess hafi það verið dólgarnir sem höfðu milligöngu um „ráðningu” þeirra en ekki herinn sem stóð fyrir því.

Sex mánuðir eru frá því Abe tók við embætti forsætisráðherra í Japan og hafa vinsældir hans meðal þjóðarinnar snarminnkað á þeim tíma. Samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem birt var í morgun nýtur hann ekki stuðnings nema 35% þjóðarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert