Fyrrverandi háttsettur leiðtogi Bosníu-Serba sagði fyrir stríðsglæpadómstóli Sameinuðu þjóðanna í Haag í dag að hann hefði farið fram á að bandaríski lögfræðingurinn Alan Dershowitz flytji áfrýjun sína á 27 ára fangelsisdómi fyrir áfrýjunarrétti. Leiðtoginn fyrrverandi, Momcilo Krajisnik, var fundinn sekur um fjöldamorð og ofsóknir.
Dershowitz er prófessor við lagadeild Harvardháskóla. Hann var ráðgjafi í „draumaliðinu“ svonefnda sem árið 1994 fékk O.J. Simpson sýknaðan af morðákæru. Krajisnik var forseti þings Bosníu-Serba í upphafi Bosníustríðsins um svipað leyti. Hann var fundinn sekur í september.
Krajisnik sagði í dag að Dershowitz hefði fallist á að flytja mál sitt, en vegna erfiðleika er tengdust fjármögnun yrði ef til vill ekki af því. Ekki er fyllilega ljóst hvers kyns erfiðleika er um að ræða. Dershowitz kvaðst ekki geta tjáð sig um málið þar sem hugsanlegt væri að hann sæi um áfrýjunina.