Notkun fíkniefnisins khat virðist vera að stóraukast í Evrópu en um er að ræða lauf grænnar plöntu, sem vex í Afríku og á Arabíuskaga. Laufin eru tuggin og komast neytendur þá í vímu sem líkist vægum amfetamínáhrifum.
Lögregla í Danmörku áætlar nú að allt að 2 tonn af þessum laufum sé flutt til landsins daglega, aðallega í bílum frá Hollandi. Á fimmtudag stóð lögregla í Rødekro t.d. Tyrkja nokkurn að verki þegar hann var að bera 200 kíló af efninu yfir í bíl í eigu tveggja Sómala.
Árið 2004 lagði tollgæsla í Danmörku hald á 753 kíló af khat en á síðasta ári var fengurinn 3388 kíló. Það sem af er þessu ári hefur verið lagt hald á 1321 kíló.