Spánverjar, Pólverjar og Ítalir fá hæstu framlögin næstu sex árin, 3,8 milljarða evra, úr fiskveiðisjóði Evrópusambandsins (e. European Fisheries Fund). Þetta tilkynnti framkvæmdastjórn sambandsins í dag. Í júní síðastliðnum ákvað ESB að setja á laggirnar nýtt styrkjakerfi fyrir sjávarútveginn, í því skyni að nútímavæða geirann og ýta undir fjölbreyttari veiðar.
Fækkað hefur í stofnum ákveðinna fisktegunda og eru styrkir veittir í ákveðna geira innan sjávarútvegsins, m.a. fiskvinnslu og markaðssetningu. Spánn fær rúman milljarð evra, Pólland 651 milljón evra, Ítalía 376 milljónir evra og Portúgal 218 milljónir. Rúmenía fær 202 milljónir og Frakkland 191 milljón. Ríkin munu svo sjálf ákveða hvernig verja eigi styrkjunum, kynna það framkvæmdastjórninni sem þarf að leggja blessun sína yfir áætlanirnar. Þær þurfa að vera í samræmi við fiskveiðiáætlun ESB.