Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í kvöld yfirlýsingu þar sem lýst er „alvarlegum áhyggjum“ af handtöku Írana á 15 breskum sjóliðum, og írönsk stjórnvöld eru hvött til að leyfa breskum sendiráðsstarfsmönnum að hitta sjóliðana.
Bretar höfðu farið fram á að ráðið krefðist þess að sjóliðarnir yrðu tafarlaust látnir lausir, en Rússar kváðust ekki geta fallist á þau tilmæli Breta, að því er haft var eftir vestrænum stjórnarerindreka.
Sendiherra Rússa hjá Sameinuðu þjóðunum, Vítalí Tsjúrkín, greindi frá þessari afstöðu rússneskra yfirvalda á lokuðum samráðsfundi.