Svissneskur maður hefur verið dæmdur í 10 ára fangelsisvist á Taílandi fyrir að hafa móðgað konung landsins. Oliver Jufer er 57 ára og var handtekinn í desember fyrir að hafa úðað úr málningarbrúsa á myndir af Bhumibol Adulyadej, konungi Taílands í borginni Chiang Mai.
Han játaði sekt sína og mun hafa fengið mildari dóm fyrir vikið. Það er litið alvarlegum augum á móðganir sem þessar í Taílandi. Hann hlaut upphaflega fjögur ár fyrir hverja af þeim fimm myndum sem hann vanvirti en það gera 20 ár sem voru lækkuð niður í 10 ár af því að hann játaði glæpinn.
Fréttastofa BBC telur að Jufer sé fyrsti útlendingurinn sem sé fangelsaður fyrir glæp af þessu tagi. Aðrir hafa verið kærðir en þeim hefur síðan verið vísað úr landi.
Jufer sem stóð frammi fyrir hámarks fangelsisvist upp á 75 ár hefur verið búsettur í Taílandi í 10 ár.
Öryggismyndavélar mynduðu hann við málningarstörfin daginn sem haldið var upp á 79 ára afmæli konungsins.
Jufer var reiður því honum hafði verið neitað um áfengi en á sumum hátíðisdögum er sala áfengis bönnuð.
Talið er að einungis náðun konungs geti bjargað honum frá langri fangelsisvist.