Mugabe segir Tsvangirai hafa beðið um barsmíðarnar

Robert Mugabe, forseti Zimbabve
Robert Mugabe, forseti Zimbabve Reuters

Robert Mugabe, forseti Zimbabve, segir Morgan Tsvangirai, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í landinu, hafa verið varaðan við því að taka þátt í mótmælaaðgerðum fyrr í þessum mánuði og að þar sem hann hafi látið það sem vind um eyru þjóta hafi hann átt skilið að vera barinn í haldi lögreglu. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

„Já, ég sagði þeim að hann hefði verið laminn en að hann hefði beðið um það,” sagði Mugabe er hann kom á landsþing stjórnarflokksins Zanu-PF í dag og vísaði þar til fundar síns með leiðtogum Suður-Afríkuríkja í Tansaníu í gær. „Ég hlaut fullan stuðning. Ekki svo mikið sem einn þeirra gagnrýndi aðgerðir okkar”. Þá hvatti Mugabe liðsmenn Zanu-PF til að standa þétt saman þrátt fyrir þrýsting utan frá og spennu innan flokksins vegna yfirvofandi ákvörðunar um það hvort Mugabe verði áfram leiðtogi og forsetaefni flokksins. Mugabe hefur sóst eftir því að leiða flokkinn áfram en er sagður vera undir vaxandi þrýstingi um að láta af völdum.

Forsetakosningar eiga að fara fram í Zimbabve á næsta ári en fyrir nokkru sagðist Mugabe, sem er 83 ára, hafa hug á að framlengja kjörtímabil sitt um tvö ár. Hann hefur síðan dregið nokkuð í land í yfirlýsingum sínum um málið og segist nú íhuga að bjóða sig fram í kosningum. Talið er a.m.k. tveir áhrifamenn innan flokksins sækist eftir útnefningu sem forsetaefni hans en ekki er ljóst hvort þeir láti reyna á fylgi sitt gefi Mugabe kost á sér.

Tsvangirai var handtekinn við mótmælaaðgerðir í höfuðborginni Harare í upphafi þessa mánaðar og höfuðkúpubrotnaði í haldi lögreglu í kjölfar handtökunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert