Olmert segir breytta afstöðu Arabaríkjanna byltingarkennda

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, með Mahmoud Abbas, leiðtoga Palestínumanna.
Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, með Mahmoud Abbas, leiðtoga Palestínumanna. Reuters

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, segir frumkvæði Arabaríkjanna í friðarumleitunum í Miðausturlöndum vera byltingu en leggur þó áherslu á að Ísraelar geti ekki fallist á hugmyndir Arababandalagsins í núverandi mynd. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

„Við skulum ekki blekkja okkur sjálf. Þeir vilja hverfa aftur til landamæranna frá árinu 1967 og einnig að flóttamenn fái rétt til að snúa aftur,” segir hann í blaðaviðtali sem birt var í dag. Þá segir hann ekki koma til greina að Ísraelar samþykki að Palestínumenn sem yfirgáfu heimili sín í Ísrael árið 1948 fái að snúa aftur til Ísraels.

Olmert segir hugmyndir Arababandalagsins hins vegar bera vott um byltingarkenndar breytingar á afstöðu Arabaríkjanna. „Þau ríki sem hafa mest áhrif í Arabaheiminum eru farin að skilja að mesta ógnin sem að þeim steðjar er ekki Ísrael,” segir Olmert í viðtali við dagblaðið Ha’aretz. Þá segir hann í viðtali við Yediot Ahronot að hann telji raunverulega möguleika á því að Ísraelar geti komist að umfangsmiklu friðarsamkomulagi við nágrannaþjóðir sínar á næstu fimm árum.

Í hugmyndum Arabaríkjanna er m.a. tekið undir kröfu Palestínumanna þess efnis að rúmlega fjórar milljónir palestínskra flóttamanna og afkomendur þeirra, sem búsettir eru víðs vegar um heiminn, fái að snúa aftur til fyrrum heimila sinna og ættingja sinna í Ísrael. Ísraelar segja slíkt hins vegar ekki koma til greina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert