Talsmaður Vladímírs Pútíns, forseta Rússlands, segir að forsetinn vilji ekki að stjórnarskránni verði breytt þannig að hann geti setið áfram í embætti forseta eftir að núverandi kjörtímabili hans lýkur á næsta ári. Forseti rússneska þingsins lagði í morgun til, að stjórnarskrá landsins verði breytt þannig að forseti geti setið í þrjú kjörtímabil í stað tveggja eins og nú er.
Sergei Mironov, þingforseti, lagði einnig til að kjörtímabilið yrði lengt í fjórum árum í fimm eða jafnvel sjö.
AP fréttastofan hefur eftir Dmitrí Peskov, talsmanni Pútíns, að afstaða forsetans sé sú að þýðingarlaust sé að breyta stjórnarskránni til að gera forseta kleift að sitja lengur en tvö kjörtímabil - átta ár.
Forsetakosningar verða í Rússlandi í mars á næsta ári.