Bandarískir embættismenn segja að það komi ekki til greina að skipta á 15 breskum sjóliðum, sem Íranar handtóku í Persaflóa, og fimm Írönum, sem bandarískar hersveitir tóku höndum í Írak.
Talsmaður utanríkismálaráðuneytisins, Sean McCormack, hafnaði slíkum hugmyndum um fangaskipti.
Fram kemur á fréttavef BBC að fimmmenningarnir, sem eru taldir vera meðlimir í íranska byltingaverðinum, hafi verið teknir höndum í janúar í borginni Irbil í Írak.
Bresk stjórnvöld hafa alfarið neitað því að bresku sjóliðarnir hafi verið í íranskri landhelgi þegar þeir voru handteknir þann 23. mars sl.
Íranarnir fimm voru handteknir eftir áhlaup Bandaríkjahers. Þeir voru með útbúnað sem Bandaríkjamenn segja að sýni fram á með beinum hætti tengsl þeirra við net manna sem útvega íröskum uppreisnarmönnum tækni- og vopnabúnað.
Þá hafa bandarískir embættismenn fordæmt aðgerðir Íranar og lýst yfir opinberum stuðningi við Breta í deilunni.