Breska ríkisstjórnin sagði í kvöld, að Íranar og Bretar vildu báðir taka upp viðræður með það að markmiði að leysa deilu um 15 breska sjóliða, sem Íranar handtóku á Persaflóa fyrir rúmri viku. Þessi yfirlýsing Breta var svar við þeirri yfirlýsingu Ari Larijani, aðalsamningamanns Írana, sem sagði að Íranar vildu leysa deiluna með viðeigandi diplómatískum hætti og ekki væri þörf á að draga bresku sjóliðana fyrir rétt.
Talsmaður breska utanríkisráðuneytisins sagði: „Það eru ýmis ágreiningsefni en við getum staðfest, að við deilum þeirri skoðun með Írönum að vilja frekar taka upp tvíhliða viðræður til að finna diplómatíska lausn á málinu."