Dauðarefsingar krafist yfir Eiturefna-Ali

Tvö fórnarlamba eiturefnaárásar í Halabja í Kúrdahéruðum Íraks árið 1988.
Tvö fórnarlamba eiturefnaárásar í Halabja í Kúrdahéruðum Íraks árið 1988. AP

Saksóknarar í Írak kröfðust í dag dauðarefsingar yfir fimm sakborningum í Anfal-réttarhöldunum vegna hernaðaraðgerða íraska stjórnarhersins gegn Kúrdum á níunda áratug síðustu aldar. Engrar refsingar er hins vegar krafist yfir sjötta sakborningnum Taher Tawfiq al-Ani, fyrrum héraðsstjóra í Mosul, þar sem sannanir gegn honum þykja ekki nægar. Á meðal sakborninganna fimm er Ali Hassan al-Majid, sem gengur undir viðurnefninu Eiturefna-Ali. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Majad er m.a. sagður hafa skipulagt eiturefnaárásir á Kúrda en hann hefur viðurkennt að hafa gefið fyrirskipanir um að þorp, sem hann segir hafa verið yfirfull af uppreisnarmönnum, yrðu lögð í rúst.

Í lokaræðu sinni sagði saksóknari mennina ekki eiga neina miskinn skilda þar sem þeir hefðu ekki sýnt, börnum og gamalmennum neina miskunn fremur en dýrum eða plöntum.

Réttarhöldunum hefur verið frestað til 16. apríl en þá munu verjendur mannanna hefja málsvörn sína

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert