Forsætisráðherra Úkraínu hvetur forsetann til að hætta við þingrof

Viktor Janúkóvítsj, forsætisráðherra Úkraínu, hvatti í kvöld Viktor Jútsjénkó, forseta, til að hætta við þingrof, sem forsetinn fyrirskipaði fyrr í kvöld. Hörð valdabarátta fer nú fram milli forsetans, sem vill aukna samvinnu við Vesturlönd, og forsætisráðherrans sem vill frekar samvinnu við Rússland.

„Forsetinn getur enn gripið til ráðstafana sem koma í veg fyrir upplausn í Úkraínu. Framar öllu getur hann hætt við að birta tilskipunina (um að rjúfa þing) og þá mun hún ekki taka gildi," sagði Janúkóvítsj á ríkisstjórnarfundi. „Ákveði forsetinn að birta tilskipunina getur hann ógilt hana," bætti hann við. Sýnt var frá fundinum í sjónvarpi.

Janúkóvítsj vitnaði einnig í ályktun, sem meirihluti úkraínska þingsins samþykkti fyrr í kvöld þar sem opnað var fyrir viðræður við forsetann.

Á ríkisstjórnarfundinum sagði Anatolí Grytsenko, varnarmálaráðherra Úkraínu, að her landsins myndi taka við skipunum frá Jútsjénkó forseta. Grytsenko er stuðningsmaður forsetans og eini ráðherrann í ríkisstjórninni, sem vill aukið samband við Vesturlönd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert