Hafa fleira fram að færa en flesk og ævintýri

Fjöldi ferðamanna heimsækir litlu hafmeyjuna
Fjöldi ferðamanna heimsækir litlu hafmeyjuna AP

Dönsk stjórnvöld hafa í hyggju að verja 412 milljónum danskra króna, eða sem svarar 4,8 milljörðum íslenskra króna til að kynna land sitt erlendis. Bendt Bendtsen viðskipta- og efnahagsráðherra segir mikilvægt að kynna fyrir heiminum að landsmenn hafi ýmislegt annað fram að færa en ævintýri, flesk og litlu hafmeyjuna.

Tilgangurinn með landkynningunni mun vera sá að laða að fleiri ferðamenn og alþjóðlega fjárfesta.

„Áskorunin felst í því að við erum þekkt og víða fyrir flesk, smjör og skáldið Hans Christian Andersen”, sagði Bendtsen þar sem aðgerðirnar voru kynntar. „Þetta er allt gott og blessað, en gefur ekki rétta mynd”. Segir Bendtsen að kynna eigi landið sem nútímalegt þjóðfélag sem hafi fram að færa nútímalega gæða-framleiðslu og þjónustu.

Danir hafa nokkuð velt fyrir sér ímynd sinni út á við eftir að birting í dagblaði á skopmyndum af spámanninum Múhameð varð til þess að múslimar hættu víða að kaupa vörur af Dönum. Forsætisráðherrann Anders Fogh Rasmussen sagði þá að skopmyndadeilan undirstrikaði þörfina á markaðsherferð þar sem ímynd Danmerkur yrði bætt.

Útflutningur á dönskum vörum jókst um 9% á síðasta ári á heimsvísu, en útflutningur til landa þar sem múslimar eru í meirihluta minnkaði hins vegar um 11%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert