Að minnsta kosti 15 manns létu lífið í flóðbylgjunni sem skall á Salómonseyjum í Kyrrahafi í kjölfar jarðskjálfta í nótt og segir Manasseh Sogavare, forsætisráðherra eyjanna, líklegt að tala látinna eigi eftir að hækka töluvert þegar fréttir berast frá afskekktum eyjum. Björgunarlið eru nú á leið til afskekktra svæða til að kanna ástandið þar.
Staðfest hefur verið að 15 manns hafi látist í nágrenni Gizo, stærsta bæjarins á vesturhluta eyjanna, en samkvæmt því sem fram kemur á fréttavef BBC segjast íbúar bæjarins ekki hafa fengið neina viðvörun um að hætta væri á flóðbylgju. Þá segir Alex Lokopio, forvarsmaður yfirvalda á vesturhluta eyjaklasans, að þúsundir manna hafi leitað skjóls á hálendi í kjölfar flóðanna og að það vanti vatn, mat og skjól. Þá segir hann miklar skemmdir hafa orðið á byggingum og að allt lauslegt hafi skolast á haf út.
Jarðskjálftinn mældist 8 stig á Richter og var flóðbylgjan fimm metra há. Jarðskjálftinn varð klukkan 20:40 í gærkvöldi að íslenskum tíma um 350 km vest-norðvestur af Honiara, höfuðborg Salómonseyja. Eftirskjálfti, sem mældist 6,7 stig, varð um átta mínútum síðar.
Flóðbylgjuviðvörun var gefin á Salómonseyjum, Ástralíu, Indónesíu, Papúa Nýju Gíneu, Vanuatu, Náru, Chuuk, Nýju Kaledóníu og fleiri eyjum en hún var síðan afturkölluð.
Salómonseyjar eru 2575 km austur af Ástralíu. 500.000 manns búa á eyjunum, margir þeirra á afskekktum eyjum í eyjaklasanum sem er á svonefndum eldhring þar sem meginlandsflekar mætast og eldgos og jarðskjálftar eru tíð.